is

Fyrir hverja eru hlutdeildarlán?

Hlutdeildarlán er úrræði sem hjálpar þeim sem þurfa aðstoð við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þeir sem falla þar undir eru fyrstu kaupendur og þeir sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár sem eru undir tilteknum tekjumörkum.

Hlutdeildarlán er fyrir þá sem geta greitt af íbúðaláni og standast greiðslumat en eiga þó ekki fyrir útborgun án aðstoðar. Afborganir af fasteignarláni mega ekki fara yfir 40% af ráðstöfunartekjum.

Gerð er krafa um að lántakar eigi lögheimili í íbúðarhúsnæðinu sem keypt var með hlutdeildarláni og óheimilt er að leigja það út nema með samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláninu en lántaki endurgreiðir lánið þegar eignin er seld eða við lok lánstíma. Hlutdeildarlánið er upphaflega veitt til 10 ára en heimilt er að framlengja lánstímann 3 sinnum um fimm ár í senn, mest til 25 ára alls. Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar því og lækkar í samræmi við það.